Hafðu samband

Listdansskóli Íslands 
Engjateig 1, 105 RVK 
 S: 588 9188 
listdans@listdans.is

Opnunartími skrifstofu
virka daga frá 9-16 

SENDA FYRIRSPURN 

 

 

Guðmundur Helgason nýr skólastjóri Listdansskóla Íslands

Eins og áður hefur komið fram verða skólastjóraskipti í Listdansskóla Íslands 1.ágúst næst komandi þegar Lára Stefánsdóttir hverfur til starfa sem listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins. Staða skólastjóra var auglýst í byrjun maí og bárust sjö umsóknir. Stjórn Dansmenntar fékk tvo utanaðkomandi fagaðila úr dansheiminum til að fara yfir og meta umsóknir og í kjölfarið voru þrír umsækjendur boðaðir í viðtal við stjórnina. Á grundvelli þeirra var síðan ákveðið að bjóða Guðmundi Helgasyni starfið.

Guðmundur hefur starfað við Listdansskólann sem kennari, fyrst á árunum 1993-2000 og síðan aftur frá árinu 2007 þegar hann flutti heim aftur eftir meistaranám í New York. Guðmundur hóf nám við þennan skóla sem þá hét Listdansskóli Þjóðleikhússins 16 ára gamall og var nemandi við skólann þegar hann flutti hingað á Engjateig. Árið 1991 hélt hann til náms við Konunglega Sænska Ballettskólann og útskrifaðist þaðan með diplómu tveimur árum síðar. Hann kom þá heim til Íslands aftur og dansaði með Íslenska dansflokknum auk þess að sinna kennslu við Listdansskólann eins og áður sagði. Einnig hefur Guðmundur samið dans við ýmis tækifæri, leiksýningar og fyrir Íslenska dansflokkinn.
Eftir ellefu ára feril með dansflokknum hélt hann til New York í meistaranám í dansi við New York University-Tisch School of the Arts auk þess að taka grunnnámsskeið í einkaþjálfun og starfa við það hjá líkamsræktarkeðjunni Equinox. Að því loknu flutti hann heim og hóf kennslu við Listdansskólann og hefur það verið hans aðalstarf síðan. Hann hefur einnig sinnt félagsmálum síðustu árin og verið formaður Félags íslenskra listdansara frá janúar 2011 og formaður Samtakanna '78 frá mars 2011.

Guðmundur hefur nú undirbúning næsta skólaárs með dyggri aðstoð Láru. Við bjóðum hann velkominn til starfa og vonum að skólinn haldi áfram að blómstra undir hans stjórn og að gleðin og sköpunarkrafturinn fái að njóta sín sem aldrei fyrr í skólastarfinu.
Stjórn Dansmenntar ehf. 

Viðburða dagatal

  • No upcoming events available


Ljósmyndasíða Listdansskólans

  
 
Finndu okkur á facebook

Vefstjórn