Ástrós Gunnarsdóttir

Ástrós útskrifaðist frá Alvin Ailey American Dance Center í New York, 1986. Hún dansaði með Impulse Dance Company í Boston eftir útskrift. Hún er CPI, Certified Pilates Instructor, frá Romana's Pilates, New York og lauk meistaraprófi, MA, í mennta- og menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Ástrós hefur starfað í Boston, New York, Oslo, Turku, Paris, Barcelona, Tokyo og Colombo sem kennari, dansari og/eða danshöfundur. Ástrós hefur unnið sem danshöfundur og aðstoðarleikstjóri við öll helstu leikhús landsins. Meðal þeirra sýninga sem hún hefur unnið við, má nefna: Hárið, Rocky Horror Show, Evita, Anna Karenina, Vald örlaganna, Blóðbrúðkaup, Grease, West Side Story, Singing in the Rain, Piaf, Galdrakarlinn frá Oz, Skilaboðaskjóðan, Latibær, Dýrin í Hálsaskógi, Litla Hryllingsbúðin, Oliver, Gauragangur, Þrek og tár, Óvitar, Litla stúlkan með eldspýturnar og Karíus og Baktus en hún leikstýrði þeim tveimur síðasttöldu. Ástrós stýrði og kenndi í nútímadansdeild Listdansskóla Íslands í 9 ár og samdi fjölmörg dansverk fyrir nemendur skólans. Hún kenndi einnig hjá Íslenska Dansflokknum og í mörgum dansskólum í Reykjavík. Hún er einn upphafsmanna Reykjavík Dance Festival, sem er eina danshátíðin sem haldin er reglulega á Íslandi og var framkvæmdarstjóri hátíðarinnar 2005. Ástrós hlaut tilnefningu sem besti danshöfundur og besti dansari á Grímuhátíðinni 2004 fyrir verk sitt, Skissa, og hefur einnig hlotið tilnefningu fyrir danshönnun í Litlu Hryllingsbúðinni, 2006 og fyrir Litlu stúlkuna með eldspýturnar, 2005, og Karíus og Baktus, 2007, sem bæði hlutu tilnefningu sem besta barnaleikritið. Af öðrum nútímadansverkum Ástrósar má nefna “Af ánægju dansandi stukku”, “Skin” og “Án titils” og videoverkin “Slurp-inn” og “Karl-Í-Mynd” og stuttmyndina “Bakglugginn”. Vorið 2008 sýndi Ástrós verk ásamt Láru Stefánsdóttur sem þær sömdu í sameiningu. Verkið heitir "Systur" og var sýnt í Iðnó. Ástrós kennir Pilates tækni bæði einkatíma og hóptíma og hefur kennt bæði hér á Íslandi og einnig á Sri Lanka þar sem hún bjó í nokkra mánuði.

Viðburða dagatal

  • No upcoming events available


Ljósmyndasíða Listdansskólans

  
 
Finndu okkur á facebook

Vefstjórn